Félög í eigu tveggja kvenna eiga samanlagðan 6,99% hlut í Sjóvá. Þetta eru félögin Arkur, sem er í eigu Steinunnar Jónsdóttur Helga Guðmundssonar í Byko, og EGG ehf, sem er í eigu Ernu Gísladóttur, stjórnarformanns Sjóvár og eiganda bílaumboðsins BL.

Félag Steinunnar á 3,79% hlut í Sjóvá eða 60.372.491 hlutabréf. Miðað við gengi hlutabréfa Sjóvá við lok viðskiptadagsins í Kauphöllinni að loknum fyrsta degi félagsins á markaði nemur verðmæti hlutabréfa félags Steinunnar 827,1 milljón króna.

Félag Ernu á 40.490.519 í Sjóvá eða sem nemur 2,54% hlut. Markaðsverðmæti hlutarins nemur rétt rúmlega 554,7 milljónum króna.

Þessu til viðbótar á félagið Draupnir-Sigla ehf 2,5% hlut í Sjóvá. Eigendur Siglu eru Finnur Reyr Stefánsson, maður Steinunnar, og Tómas Kristjánsson. Eigandi Draupnis er svo Jón Diðrik Jónsson. Þremenningarnir eru allir fyrrverandi framkvæmdastjórar hjá Glitni. Draupnir Sigla á 2,5% hlut í Sjóvá eða 39.776.526 bréf. Markaðsverðmæti þeirra nemur 544,9 milljónum króna.

Stærsti hluthafi Sjóvár er félagið SAT Eignarhaldsfélag með 13,67% hlut. Á eftir kemur SVN eignarhaldsfélag með 11,68%. Félagið er í eigu Síldarvinnslunnar. Aðrir hluthafar á lista yfir 20 helstu hluthafa Sjóvár eru svo bankar, lífeyrissjóðir og aðrir sjóðir.