*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 14. október 2021 11:14

Segir Icelandair og Play í feluleik

Ritstjóri Túrista gagnrýnir flugfélögin fyrir skort á upplýsingagjöf og segir þau nota skráningu á markað sem skjól.

Ritstjórn
HAG / AÐSEND

Upplýsingagjöf íslensku flugfélaganna Icelandair og Play hefur verið ábótavant að undanförnu, að mati Kristjáns Sigurjónssonar, ritstjóra Túrista, en hann fjallar um málið vef fréttaveitunnar. Icelandair hafi neitað að tjá sig um hvort og þá hversu mikið sala á flugi til og frá Bandaríkjunum hafi aukist eftir að bandarísk stjórnvöld tilkynntu um að opnað yrði fyrir ferðalög bólusettra Evrópubúa. Þá svari Play ekki fyrirspurnum um hvaða áhrif lægri farþegatölur en lagt var upp með í fjárfestakynningu fyrir útboð félagsins hafi á afkomu félagsins í ár.

Í lok september tilkynntu bandarísk stjórnvöld um að bólusettum Evrópubúum heimilt að ferðast til Bandaríkjanna frá og með byrjun næsta mánaðar. Kristján bendir á að ýmis flugfélög greindu í kjölfar tilkynningarinnar frá gífurlegri aukningu í miðasölu til Bandaríkjanna í kjölfar tilkynningarinnar. Lufthansa gaf út að salan til Bandaríkjanna hefði þrefaldast og Virgin Atlantic tilkynnti um að salan hafi verið sexfalt meiri daginn sem greint frá tilslökunum heldur en á sama degi vikuna á undan. Forstjórar bandarísku flugfélaganna Delta og JetBlue hafa sagt að eftirspurn eftir flugi yfir Norður-Atlantshafið hafi tífaldast.

Forsvarsfólk Icelandair segir í svörum við fyrirspurnum Túrista um aukna sölu að ekki sé hægt að ræða stöðuna þar sem félagið sé skráð á hlutabréfamarkað. „Það má því ljóst vera að hluthafar erlendu flugfélaganna hafi mun betri sýn á gang mála í dag en hluthafar Icelandair,“ skrifar Kristján. Þess má geta að Icelandair svaraði ekki fyrirspurn Viðskiptablaðsins um hvort eftirspurn hafi aukist vegna tilkynningar bandarískra stjórnvalda.

Túristi bar undir Kauphöllina hvort ekki væri eðlilegt að Icelandair deili þessum upplýsingum með markaðnum. Fyrirspurninni var svarað á þann veg að talsmönnum flugfélagsins væri frjálst að tjá sig án athugasemda frá Kauphöllinni eða Fjármálaeftirlitinu ef Icelandair metur upplýsingarnar um sölu á Bandaríkjaferðum ekki sem innherjaupplýsingar.

„Þetta svar er ekki hægt að skilja öðruvísi en á þann veg að stjórnendur Icelandair megi ræða farmiðasöluna, annað hvort beint í fjölmiðlum eða þá í kauphallartilkynningum. Þeir kjósa hins vegar frekar að segja sem allra minnst. Og breyta ekki út af vananum þegar framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála félagsins segir starfi sínu lausu akkúrat þegar helsti markaður flugfélagsins er að opnast á ný,“ skrifar Kristján.

Viðmið í fjárfestakynningu Play heldur ekki

Í fjárfestakynningu Play fyrir útboð félagsins í júní var sett upp sviðsmynd þar sem horft var til þess að farþegar félagsins yrðu um 143 þúsund talsins og sætanýting yrði 71,8% í ár. Miðað við þá áætlun var gert ráð fyrir 15 milljóna dala tapi í ár eða sem nemur nærri tveimur milljörðum króna.

Sætanýting Play var rúmlega 42% í júlí, fyrsta heila rekstrarmánuði félagsins. Túristi rifjar upp að nokkrum dögum fyrir skráningu félagsins á First North markaðinn hafi Birgir Jónsson, forstjóri Play, sagt að þegar hefði helmingur allra sæta í ferða félagsins í júlímánuði verið bókaður. Sætanýtingin var 46% í ágúst og 52% í september.

Sjá einnig: Farþegafjöldi Play undir markmiði

Kristján bendir hins vegar á að farþegahópurinn hafi verið 12% fámennari í september samanborið við ágústmánuð sem skýrist af fækkun á ferðum til London, Parísar og Berlínar. Nú þegar þrír mánuðir eru eftir að árinu sé ljóst að farþegar verða ekki eins margir og kom fram í umræddri sviðsmynd.

„Hjá Play fást engin svör um hvaða áhrif færri farþegar hafa á tekjuáætlunina og hvort tapið í ár verði þá umfram þá tæpu tvo milljarða króna sem lagt var upp með. Samskiptastjóri Play vísar einfaldlega til skráningar á hlutabréfamarkað þegar spurt er um afleiðingar þess að farþegarnir verði umtalsvert færri en áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir í frétt Túrista.

Sviðsmyndin af rekstri Play sem birtist í fjárfestakynningu félagsins dagsettri 14. júní 2021.

Stikkorð: Icelandair Play Túristi