Meirihluti stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis leggur drög að því að senda frumvarp um breytta stjórnarskrá til Feneyjanefndarinnar, þar sem það verði metið heildstætt. Frumvarpið var afgreitt í nefndinni í gær og verður það tekið til umræðu á þriðjudag í næstu viku. Feneyjanefndin er ráðgefandi fyrir Evrópuráðið í stjórnarskrármálum.

Ólöf Nordal, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, segir í samtali við Fréttablaðið óeðlilegt að málið fari í umræður á Alþingi áður en heildstætt mat hafi farið fram á áhrifum breytinga á stjórnarskrá eins og sérfræðihópur hafi bent á.

„Hér er um að ræða frumvarp sem kemur annars staðar frá og mér finnst eðlilegt að meirihlutinn láti þetta mat fara fram áður en hann leggur frumvarpið fram," segir hún.