Amazon hefur tryggt sér um 650 milljónir dala, eða sem nemur 84 milljörðum króna, í skattaafslætti í Bandaríkjunum í ár. Þetta kemur fram í gögnum samtakanna Good Jobs First sem taka þó fram að um sé að ræða varfærið mat vegna leyndar við ákveðna samninga.

Þrátt fyrir að þrír mánuðir eru eftir af árinu þá hefur þessi fjárhæð aldrei verið hærri hjá netrisanum á einu ári, ef einstök stór verkefni eru undanskilin, líkt og kvikmyndaverkefni eða 750 milljóna dala samningurinn sem Amazon fékk árið 2019 til að byggja sína aðra höfuðstöð í Arlington héraði í Virginía fylki.

Alls hefur Amazon fengið 4,1 milljarð dala, eða nærri 530 milljarða króna miðað við núverandi gengi krónunnar, í skattaafslætti í Bandaríkjunum frá árinu 2000.

Skattaívilnanirnar sem Amazon hefur fengið skýrist einkum af því að fylkis- og borgarstjórnir sjá tækifæri að fá inn ný störf á sín svæði, bæta þar með vinnumarkaðinn og styrkja hagkerfi þeirra, sér í lagi eftir Covid-faraldurinn, að því er kemur fram í frétt Financial times .

Þessir viðskiptahættir hafa lengi verið umdeildir en Amazon hefur varið þessa samninga út frá þeim fjölda starfa sem fyrirtækið hefur skapað í gegnum tíðina. Netrisinn heldur því einnig fram að í mörgum tilfellum hafi sömu kjör staðið öðrum fyrirtækjum til boða, ekki aðeins Amazon.