Denise Coates, stofnandi og forstjóri breska veðmálafyrirtækisins Bet365, var með 213 milljónir punda í laun eða sem nemur 367 milljörðum króna, á fjárhagsárinu sem lauk í mars 2022, samkvæmt ársreikningi sem var birtur í dag. Financial Times greinir frá.

Coates var einnig með a.m.k. helmingshlutdeild í 100 milljóna punda arðgreiðslu sem Bet365 greiddi fjórum stjórnendum félagsins. Bróðir hennar, John Coates, starfar sem staðgengill forstjóra og faðir hennar Peter Coates, er stjórnarformaður félagsins.

Launakjör Denise Coates á síðasta fjárhagsári námu því um 263 milljónum punda, eða um 45 milljörðum króna. Það er um 16-falt hærra en kjör launahæsta forstjóra FTSE 100 fyrirtækis, sem er Sébastien de Montessus hjá námufyrirtækinu Endeavour Mining.

Einungis tíu forstjórar bandarískra fyrirtækja voru með hærri launakjör en Coates, þar á meðal Tim Cook, forstjóri Apple, og Elon Musk, forstjóri Tesla.

Afkoman dróst saman um 90%

Þrátt fyrir hin svimandi háu launakjör Denise Coates, þá drógust tekjur hennar saman annað árið í röð. Launakjör hennar náðu hámarki í 421 milljón punda á árinu fyrir Covid-faraldurinn og námu 298 milljónum punda á næst síðasta fjárhagsári. Hún hefur því alls fengið nærri 1 milljarð punda frá Bet365 á síðustu þremur árum.

Hagnaður Bet365 fyrir skatta féll um 90% á milli ára og nam 49 milljónum punda, eða sem nemur 8,5 milljörðum króna, og hefur ekki verið minni frá árinu 2008. Veðmálafyrirtækið rekur verri afkomu til 320 milljóna punda aukningu í stjórnunarkostnað (e. administration expenses), sem skýrist m.a. af útgjöldum til markaðssetningar á nýjum mörkuðum og fjárfestingu í upplýsingatæknibúnaði.

Starfsmönnum Bet365 fjölgaði um 649 á fjárhagsárinu og eru þeir nú samtals fleiri en 6 þúsund talsins. Fyrirtækið er með starfsemi í 18 löndum.

Tekjur félagsins jukust um 2% frá fyrra ári og námu 2,87 milljörðum punda en virkum notendum fjölgaði um 48%. Áætlað er að tekjur á hvern notenda hafi fallið um 30%.

4,5 milljarða tap af Stoke City

Höfuðstöðvar Bet365 Group eru í borginni Stoke-on-Trent og er félagið eigandi knattspyrnuliðsins Stoke City, sem í dag leikur í næstefstu deildinni á Englandi.

Bet365 bókfærði 26,2 milljóna punda tap, eða um 4,5 milljarða króna, vegna Stoke City.