*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 31. janúar 2018 09:09

Fengju hlutinn á 23 milljarða

Ef Kaupþing nýtir sér kauprétt á 13% hlut ríkisins í Arion yrði hluturinn seldur áfram á svipuðu verði til lífeyrissjóðanna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Þó bókfært virði 13% eignarhlutar ríkisins í Arion banka sé fært á 29 milljarða króna, þyrfti Kaupþing einungis að greiða 23 milljarða fyrir hlutinn. Er það vegna kaupréttarákvæðis í hluthafasamkomulagi frá árinu 2009 að því er Fréttablaðið greinir frá.

Líkt og fram kom í Viðskiptablaðinu fyrir hálfum mánuði bauð Kaupþing lífeyrissjóðunum að kaupa hlut í Arion banka, og kom í ljós í síðustu viku að um er að ræða 5% hlut. Fréttablaðið segir kaupverðið vera rétt yfir genginu 0,8 m.v. eigið fé bankans, sem er nánast sama verð og kaupréttarsamningurinn gerir ráð fyrir.

Þurfa lífeyrissjóðirnir að svara því fyrir helgi hvort þeir hyggist fara í viðræður við Kaupþing um kaup á hlut í bankanum. Hyggst Kaupþing einungis nýta sér kaupréttinn á hlut ríkisins ef lífeyrissjóðirnir hafa áhuga á að kaupa talsvert stærri hlut en þau 5% sem tilboðið hljóðaði upphaflega um.

Einn af stærstu fjórum lífeyrissjóðunum, LSR, Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Gildis og Birtu hefur þegar tekið afstöðu um að fara ekki í viðræðurnar að því er Fréttablaðið greinir frá.