BVS ehf., greiddi 15,1 milljón dollara til hluthafa sinna í febrúar, um 1,9 milljarða króna með lækkun hlutafjár félagsins. Félagið heldur utan um forgangshlutabréf fyrri eigenda Borgunar í VISA Inc. Íslandsbanki er stærsti hluthafi félagsins með 63,5% hlut og þá á Eignarhaldsfélagið Borgun þriðjungshlut.

VISA hlutabréfin voru aðskilin frá Borgun áður en Borgun var seld til Salt Pay á síðasta ári og sett inn í félagið BVS.

Í svari Íslandsbanka við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að greiðslan hafi borist vegna undirliggjandi Visa bréfa sem dreift hafi verið til hluthafa. Markmið BVS er að koma hlutabréfunum í verð, greiða söluandvirðið til hluthafa og slíta félaginu í kjölfarið. Íslandsbanki segir að ekki liggi endanlega fyrir hvernig sölu bréfanna verði háttað. Um sé að ræða flókinn eignarflokk þar sem einungis séu fáir sérhæfðir kaupendur til staðar.