Hækkandi húsnæðisverð frá árinu 2010 hefur aukið eigið fé landsmanna um rúmlega 2.050 milljarða króna, umfram verðbólgu, eða ríflega 2 billjónir að því er Íslandsbanki segir frá í greiningu .

Bendir greiningardeild bankans á að um sambærilega upphæð er að ræða og heildarskuldir allra heimila landsins. Á sama tímabili nema nettó vaxtagjöld heimilanna, það er gjöld að frádregnum vaxtabótum, 575 milljónum króna.

Þannig er hrein verðmætaaukning heimilanna tæplega 1.500 milljarðar króna, eða 1,5 billjónir króna, sem nemur um 1,4 milljónum króna á hvert heimili, á hverju einasta ári frá árinu 2010.

Fimmtungur á leigumarkaði og tíundi hluti í heimahúsum

Segir Íslandsbanki að húsnæðiseigendur hafi þannig fengið allan fjármagnskostnaðinn margfalt til baka í uppsveiflunni, en á sama tíma hafi aðilar í foreldrahúsum eða á leigumarkaði að öllu leyti setið eftir. Það séu um 30% landsmanna, í heildina en um fimmtungur er á leigumarkaði.

Segir bankinn að því miður sé útlit fyrir að hagur þessara aðila hafi aftur á móti versnað, því bæði sé orðið dýrara að leigja og erfiðara að kaupa með hækkandi verði síðan uppsveiflan byrjaði.

Til viðbótar megi segja að staða þessara hópa, sem flestir eru ungt fólk eða í lágtekjuhópum, hafi versnað meira en vísitölur gefi til kynna, því ungt fólk hafi fengið minni launahækkanir en aðrir hópar. En einnig því smærri íbúðir sem henti ungu fólki, hafi aldrei verið dýrari.