Á síðasta ári skiluðu sér 157 milljón flöskur og dósir til Endurvinnslunnar sem er metfjöldi en þetta gæti numið um 85% af umbúðum af þessum gerðum sem fóru á markað í fyrra að því er Morgunblaðið greinir frá.

Fyrir þær fengu skilvísir notendur um 2,5 milljarða króna, en skilagjaldið er 16 krónur fyrir hverja flösku. Miðað við það verð næmi heildarupphæðin á 30 ára starfstíma félagsins um 41 milljarði króna.

Helgi Lárusson framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar hf., segir að mest skilist frá einstaklingum en einnig séu ýmis konar félagasamtök eins og íþróttafélög, björgunarsveitir og góðgerðafélög dugleg við söfnun endurvinnalegra umbúða. Þannig verði til dæmis notuð áldós að nýrri á 60 dögum.

„Skil hafa aukist frá fyrra ári, þegar þau voru um 83%, en þau mættu samt vera meiri,“ segir Helgi, sem þakkar stórum framleiðendum eins og Coca Cola og Pepsi fyrir að nota endurvinnanlegt plast sem sé umhverfisvænt.

„Að auki sparast í hverju tonni af plastflöskum 1,8 tonn af olíu. Vandamálið í dag er að ekki fæst nægjanlega mikið af plastdrykkjarumbúðum og áldósum til að framleiða allar þær endurunnu plastflöskur og dósir sem menn vilja framleiða.“