Sky Lagoon, baðlónið sem nú er í uppbyggingu á Kársnesinu í Kópavogi , hefur fengið yfir 300 umsóknir á þeim um hálfa sólarhring síðan fyrirtækið hóf að auglýsa eftir starfsfólki á ráðningarsíðunni Alfreð . Félagið leitar aðallega að fólki í vaktavinnu við þrif, öryggisgæslu og þjónustu, auk vaktstjóra sem og „félagslyndum í framlínu“.

Dagný Pétursdóttir framkvæmdastjóri Sky Lagoon segir að þau hafi vilji byrja ráðningarferlið tímanlega því það mun taka sinn tíma. Baðlónið rís nú óðum undir stjórn ÍAV , og á það að vera tilbúið á tímabilinu apríl maí, á lóð við hliðina á þeirri sem höfuðstöðvar og hótel Wow áttu að rísa.

„Það bara hrannast inn umsóknir hjá okkur, það eru komnar inn nokkur hundruð umsóknir fyrstu klukkutímana, eða yfir 300, það er alveg magnað. Við erum ekki alveg búin að ákveða hvað við ráðum marga í allt, en þetta verða svona milli 35 og 40 manns í fyrstu atrennu og svo sjáum við fyrir okkur ef allt gengur vel að við getum jafnvel bætt fleirum við okkur fyrir sumarið,“ segir Dagný.

„Það fer auðvitað allt þó eftir því hvernig sumarið verður, hvernig takmarkanirnar vegna heimsfaraldursins verða og allt það. Ástandið kallar á það eins og hjá öðrum í viðskiptalífinu að það þarf eiginlega að skipuleggja sig viku fyrir viku. Svo við ætlum bara að keyra á lágmarksmannskap til að byrja með, og sníða okkur stakk eftir vexti, en við erum að reyna að halda í bjartsýnina. Við finnum alveg gríðarlega miklar væntingar og áhuga fyrir opnun og vonandi getum við byrjað starfsemi þarna í apríl maí.“

Dagný segir það hafa komið skemmtilega á óvart hversu mikla athygli frétt Viðskiptablaðsins um ráðningu Sky Lagoon á þremur einstaklingum í september síðastlinum fékk, en þá fékk fyrirtækið til liðs við sig rekstrarstjóra, sölustjóra og upplifunar- og markaðsstjóra.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í desemberbyrjun árið 2019 er áætlaður framkvæmdakostnaður baðlónsins 4 milljarðar króna. Dagný segir það gefa ákveðna vísbendingu um stærð verkefnsins að þurrgufan í lóninu verði sú stærsta á Íslandi. Bara glerið sem sett var í hana er um 20 fermetrar að stærð og vó um 2,4 tonn.

  • Mynd frá framkvæmdum við Sky Lagoon lónið á Kársnesinu þegar glerið í þurrgufuna var híft á sinn stað.

Það er fyrirtæki Eyþórs Guðjónssonar og Gests Þórissonar, Nature Resorts sem standa að verkefninu ásamt kanadíska fyrirtækinu Pursuit, rekstraraðilar Fly Over Iceland, sem mun reka lónið. Dagný, sem var framkvæmdastjóri Bláa lónsins í áratug fram til ársins 2017, segir að byrjað verði að vinna úr umsóknunum þegar umsóknartíminn rennur út í lok mánaðarins.

„Við vitum að þetta ferli tekur langan tíma og þess vegna viljum við byrja snemma,“ segir Dagný. „Þeir sem komast í gegnum fyrstu síu fara í svona myndbandssamtal sem er frábær valmöguleiki sem Alfreð býður upp á. Þá svara allir sömu spurningunni í mynd og þeir sem komast svo í gegnum það verða boðaðir í viðtal.“