Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls, setti upp sérstakan bónuspott að andvirði fjögurra milljóna Bandaríkjadala (um hálfur milljarður króna á núv. gengi) sem ætlaður var stjórnendum félagsins fyrir að viðhalda og þróa enn frekar verkefni félagsins í Helguvík.

Bónusgreiðslurnar voru greiddar út á árunum 2010, 2011 og 2012 en sem kunnugt er hefur Norðurál unnið að því að reisa álver í Helguvík frá árinu 2005 án árangurs.

Í ársskýrslu Century fyrir árið 2012, sem kom út í apríl í fyrra, kemur fram hversu mikið fjórir af æðstu stjórnendum félagsins fengu greitt úr bónuspottinum fyrir árið 2011. Ekki kemur fram hvort potturinn hafi allur verið greiddur út eða hvort Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, eða aðrir stjórnendur Norðuráls hafi fengið greitt úr honum. Ragnar er þó á lista yfir æðstu stjórnendur Century (e. key senior management) ásamt Gunnari Guðlaugssyni, framkvæmdastjóra Norðuráls á Grundartanga.

Ágúst F. Hafberg, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðurál, segir í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins að ítarlegar upplýsingar um starfskjör stjórnenda séu að finna í ársskýrslum Century Aluminum og að Norðurál geti ekki veitt frekari upplýsingar um kjör einstakra starfsmanna Century eða Norðuráls.

Nánar er fjallað um bónusgreiðslurnar og verkefnið í Helguvík í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.