Þegar Samherji óskaði eftir að taka jafngildi 7.400 evra, jafnvirði um 1,2 milljónir króna, út af eigin reikningi í farareyri handa starfsmönnum Ice Fresh Seafood tók það ekki færri en 13 starfsmenn fjögurra fyrirtækja og stofnana að taka út peningana. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, greinir frá þessu á heimasíðu félagsins.

Hann segir að varlega megi áætla að samtals hafi veirð notaðar meira en 15 vinnustundir til að „leysa þetta viðamikla verkefni“ sem spannaði tvo vinnudaga. Ástæða útektarinnar er för starfsmanna á stærstu sjávarútvegssýningu í Evrópu sem haldin er í Brussel. Þorsteinn Már bendir á að velta Ice Fresh Seafood er árlega um 150.000.000 evrur.

Grein Þorsteins ber yfirskriftina „Eigum við að reka aljþoðleg markaðsfyrirtæki á Íslandi?“. „Að undanförnu hefur verið fjallað nokkuð um starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi.  Er óeðlilegt í því sambandi að maður spyrji sig :  Er hagkvæmt að reka alþjóðlegt sölu- og markaðsfyrirtæki á Íslandi ef það tekur tvo daga að taka út  farareyri  af  reikningi fyrirtækis,  handa starfsmönnum þess?“ spyr Þorsteinn í niðurlagi greinarinnar sem má lesa hér .