Í febrúar næstkomandi mun tímaritið Nordic Style Magazine fást í verslunum Barnes & Noble en það er sá bókasali sem rekur flestar bókabúðir í Bandaríkjunum undir sínu nafni eða 632. Nordic Style Magazine var stofnað af Soffíu Theódóru Tryggvadóttur árið 2012 þegar hún var við nám í New York en hún hóf fljótlega samstarf við Signýju Kristinsdóttur sem er nú framkvæmdastjóri tímaritsins. Tímaritið fjallar um hönnun, tísku, listir og menningu á Norðurlöndunum og hjá því starfa fimmtán blaðamenn auk ljósmyndara, stílista og annarra.

Signý segir að bókasalinn hafi fylgst með tímaritinu um skeið og þótt það passa vel inn í nýja tegund verslana hjá sér. „Þau hafa verið að fylgjast með okkur í svolítinn tíma og Barnes & Noble hefur verið að búa til það sem kallast hugmyndabúðir eða Concept stores á ensku.

Þannig er að þau eru að búa til stórar verslanir með veitingastöð- um sem eru innréttaðar svona kósý og huggulegar. Markmiðið er að fólk sitji, fái sér að borða eða fái sér bjór, og séu í kringum lesefnið í langan tíma. Í tengslum við þessar breytingar hafa þau verið að leita að nýju efni og fannst við passa vel inn í það sem þau eru að reyna að skapa. Eftir að þau höfðu samband hugsuðum við okkur aðeins um en ákváðum svo að slá til,“ segir Signý.

Af vefnum yfir á prent

Hingað til hefur tímaritið verið gefið út í vefútgáfu en mun í fyrsta skipti fara í prent í tengslum við samninginn við Barnes & Noble. Signý segir það ef til vill geta hljómað dálítið undarlega að veftímarit sé að færa sig í prent á tímum stafrænu byltingarinnar en prentað efni sé að skapa sér nýjan sess í hugum fólks.

„Í gamla daga notaði fólk hesta sem samgöngumáta. Svo komu bílarnir en fólk hætti ekki að fara á hestbak, því allt í einu varð það að fara á hestbak orðinn munaður og til yndisauka. Svipað er að eiga sér stað í prenti í dag. Þetta er orð- inn svolítill griðastaður og lúxus að geta kúplað sig út af nettengingunni. Að fá að sitja með kaffibolla og detta inn í tímarit sem maður hefur í höndunum,“ segir hún.

Spurð hvort markmiðið hafi verið frá upphafi að skrifa fyrir alþjóðlegan markað eða hvort ætlunin hafi verið leggja áherslu á norrænan markað fyrst um sinn segir Signý að grunnhugmynd tímaritsins sé að deila með heiminum öllum þeim gæðaverkum sem koma frá norrænum hönnuðum og listamönnum.

„Við skrifum á ensku og okkar markmið er að deila norrænum hæfileikum með heiminum eða eins og það er útlagt á ensku Sharing nordic talents with the world. Við vildum gefa öllu því góða sem er að koma frá Norðurlöndunum og sérstaklega Íslandi byr undir báða vængi. Það er svo erfitt að koma sér á framfæri ef maður er t.d. íslenskur hönnuður eða listamaður. Við elskum alla þessa hæfileikaríku hönnuði og skapandi fólk á Norðurlöndunum og það hefur verið áherslan hjá okkur að hjálpa því en við vissum auðvitað á sama tíma að það væri áhugi fyrir efni frá fólki á Norðurlöndunum,“ segir Signý.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .