Teymi hefur afskrifað rúmlega milljarðs króna skuld vegna kaupréttarsamninga fyrrum forstjóra og fjármálastjóra félagsins. Lánin, sem Glitnir veitti, voru notuð til að kaupa hlutabréf í Teymi sem síðan voru sett inn í eignarhaldsfélög þeirra Árna Péturs Jónssonar, fyrrum forstjóra Teymis, og Ólafs Þórs. Þegar félagið var afskráð í október 2008 tók Teymi yfir bæði félögin og skuldir þeirra. Engar eignir voru inni í félögunum aðrar en verðlaust hlutabréf í Teymi.

Tíðar nafnabreytingar

Annað félagið hét upphaflega Árni Pétur Jónsson ehf. og var í eigu Árna Péturs Jónssonar, fyrrum forstjóra Teymis, og eiginkonu hans. Nafni félagsins var breytt í TT1 í lok október 2008 og enn breytt í K10481 ehf. nokkrum mánuðum síðar. Félaginu var síðan slitið í júlí síðastliðnum. Þá höfðu skuldir þess upp á 442 milljónir króna verið afskrifaðar. Félagið átti hins vegar yfirfæranlegt skattalegt tap að fjárhæð 435,2 milljónum króna. Tapið myndaðist á árunum 2007 til 2009 og er nýtanlegt  í 10 ár, samkvæmt því sem fram kemur í árshlutareikningi þess fyrir árið 2010.

Í vinnu hjá lánardrottni

Hitt félagið hét upphaflega Ólafur Þór Jóhannesson ehf. og var í eigu Ólafs Þórs Jóhannessonar, fyrrum fjármálastjóra Teymis og eiginkonu hans. Nafni félagsins var svo breytt í TT2 ehf. í október 2008 og enn breytt í K10482 ehf. nokkrum mánuðum síðar. Teymi hækkaði hlutafé félagsins til jafns við skuld þess í mars síðastliðnum og afskrifaði við það í raun skuldina. Í staðinn getur Teymi nýtt skattalegt tap félagsins næstu tíu árin. Félagið skuldaði alls 589,3 milljónir króna í lok árs 2009. Félagið átti um mitt þetta ár yfirfæranlegt skattalegt tap að fjárhæð 580 milljónir króna. Tapið myndaðist á árunum 2007 til 2009 og er nýtanlegt í 10 ár. Í kjölfarið var félagið afskráð þann 6. júlí síðastliðinn.

Ólafur Þór var ráðinn framkvæmdastjóri Miðengis ehf., eignaumsýslufélags Íslandsbanka, í byrjun febrúar síðastliðins. Bankinn sem þurfti að afskrifa hundruð milljóna króna af skuldum hans réð hann því til vinnu