Bónusgreiðslur til yfirmanna stórfyrirtækja og banka hafa verið töluvert á milli tannanna á fólki og nú síðast bárust fréttir af því að í Sviss væri búið að banna aukagreiðslur til starfsmanna við starfslok. Jafnvel þótt sambærilega reglur giltu í Bandaríkjunum myndu þær væntanlega ekki ná yfir félagana Jacob J. Lew og Harold S. Koplewicz, því þeir störfuðu ekki hjá fyrirtæki heldur háskóla.

Báðir voru í yfirstjórn New York University (NYU) og fengu afar myndarlegar aukagreiðslur frá skólanum. Lew, sem áður var aðstoðaframkvæmdastjóri skólans, fékk 685.000 dala bónusgreiðslu þegar hann hætti hjá skólanum og fór að vinna hjá Citigroup árið 2006. Koplewicz, sem var framkvæmdastjóri á háskólasjúkrahúsi NYU, fékk öllu hærri starfslokagreiðslu þegar hann hætti hjá skólanum árið 2009, eða um 1.230.000 dali. Jafngildir þetta um 150 milljónum króna. Í bókhaldi skólans er greiðslan kölluð „severance“ á ensku, en það orð er að jafnaði aðeins notað þegar starfsmanni er sagt upp. Það átti þó ekki við í tilfellum Lew og Koplewicz.

NUY hefur orð á sér að gera mjög vel við lítinn hóp af stjörnustarfsmönnum. Skólinn keypti 6,5 milljóna dala íbúð fyrir yfirmann háskólasjúkrahússins og greiddi meira en fjórar milljónir dala til að gera fyrrverandi lögfræðiprófessor við Columbia háskólann kleyft að halda íbúð sinni á Manhattan þegar hún hóf störf hjá NYU. Deildarforseti lagadeildarinnar fékk svo 5,7 milljón dollara lán til að kaupa sér íbúð. Þá eru nokkrir fyrrverandi framkvæmdastjórar skólans enn í húsnæði í eigu NYU án þess að greiða af því leigu.

Í frétt New York Times segir að þessi sérmeðferð fari mjög fyrir brjóstið á mörgum öðrum starfsmönnum skólans. Haft er eftir einum kennaranum að greiðslur sem þessar séu „ógeðslegar“ þegar aðjúnktar við skólann eru svo illa launaðir að þeir eiga rétt á mataraðstoð frá ríkinu og nemendur sligast undir sífellt stærri námslánum.