Skip Bergs-Hugins, Bergey VE og Smáey VE (áður Vestmannaey VE), hafa nýlega verið seld og þau leyst af hólmi af nýjum skipum. Svo ber við að að gömlu Vestmannaey fylgir mikið magn varahluta en það sem óvenjulegt má teljast að innan um varahlutina er ónotuð aðalvél. Það má kalla sjaldgæft ef þá ekki óþekkt.

Þetta kemur fram í frétt Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Þar segir að Bergey fékk nafnið Runólfur og var seld til Guðmundar Runólfssonar hf. í Grundarfirði, en Smáey fékk nafnið Sturla og var seld til Þorbjarnar hf. í Grindavík. Bæði þessi skip voru smíðuð í Póllandi árið 2007.

Guðmundur Alfreðsson, útgerðarstjóri Bergs-Hugins, er önnum kafinn við það verk að ganga frá fylgihlutum Sturlu þegar heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við hann.

„Nú er lokið við að taka saman allt sem fylgir Sturlu til Grindavíkur og það er sannast sagna ekkert smáræði. Stærsti hluturinn er heil ónotuð aðalvél í skipið sem samið var um að fylgdi því. Það er óneitanlega óvenjulegt að aðalvél fylgi skipi þegar það er selt og kannski er það einsdæmi. Að auki fá Grindvíkingarnir mikið af varahlutum í vélbúnað ásamt miklum bunka af „manuölum“. Runólfi fylgdi einnig mikill búnaður eins og til dæmis skrúfublöð og tveir afgasblásarar. Staðreyndin er sú að við hjá Bergi-Hugin lögðum áherslu á að eiga alla varahluti svo skipin tefðust sem minnst frá veiðum ef eitthvað bilaði og því er svona mikið til sem nýir eigendur skipanna njóta góðs af,“ segir Guðmundur.