Seinni vinningshafinn, sem fékk lottóvinninginn á laugardaginn, hefur gefið sig fram við Íslenska getspá. Hún er atvinnulaus fjölskyldukona á höfuðborgarsvæðinu, eftir þvi sem segir á vef Íslenskrar getspár.

„Það var fyrir tilviljun að hún kom við á Select á Bústaðavegi, hún var að koma úr Vesturbænum og var alveg við það að verða bensínlaus.  Afgreiðslumaðurinn var sérstaklega elskulegur og þjónustulundaður og bauð henni að kaupa lottómiða, sem hún þáði.  10 raða sjálfvalsseðil sem kostar 1300 krónur.  Hún skoðaði miðann ekki fyrr en eftir hádegið í dag eftir að  hún hafði heyrt að annar miðinn hefði verið keyptur á þessari stöð.   Þegar í ljós kom að þetta var vinningsmiðinn titraði konan og skalf.  Hún setti miðann í veskið og  skellti sér í sturtu og tók veskið með sér inn á baðherbergið því að allt í einu þorði hún ekki að líta af því, samt var hún búin að þvælast með það út um allt og 70 milljón króna lottómiða í veskinu án þess að hún hefði hugmynd um það,“ segir á vef Íslenskrar getspár.

Það voru tveir sem hlutu 1. Vinning í lottóinu á laugardag og fékk hvor um sig 70 milljónir. Sá sem áður hafði gefið sig fram var fjölskyldumaður á fertugsaldri sem mætti til Íslenskrar getspár á þriðjudagsmorgun. Sá vinningshafinn spilar oft með í Lottó og Lengjunni og verslar miðana sína á lotto.is.

Lottóvinningurinn á laugardaginn var áttfaldur og hefur aldrei verið stærri. Það er óhætt að segja að vinningshafarnir hafi fengið góða desemberuppbót.