Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitti nýlega CEO HUXUN styrk úr styrktaráætluninni „Átak til atvinnusköpunar“, sem er í umsjón Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, til að hefja fyrstu skref við að markaðssetja mánaðarlegar árangursmælingar í Noregi.

Gunnhildur Arnardóttir og Trausti Harðarson stofnuðu CEO HUXUN árið 2010, en fyrirtækið sérhæfir sig í forstjóra- og framkvæmdastjóraráðgjöf. Fyrirtækið hefur í nokkur ár boðið upp á mánaðarlegar árangursmælingar, en niðurstöður þeirra eru notaðar samhliða öðrum lykiltölum fyrirtækja, eins og mánaðarlegum fjármála- og framleiðslutölum.

„Mánaðarlegar árangursmælingar er tæki þar sem forstjórinn hlustar á starfsfólk sitt og niðurstaðan verður mælanleg. Forstjórinn heyrir frá hverjum starfsmanni einu sinni í mánuði. Hlustar á það góða og hvað betur mætti fara,” segir Trausti og Gunnhildur bætir við: „Fjölmörg fyrirtæki hér á landi hafa séð hag sinn í Mánaðarlegum árangursmælingum. Á meðal viðskiptavina eru fyrirtæki á borð við Ölgerðina, Landsbankann og Einkaleyfastofu.“

„Góðir starfsmenn yfirgefa lélega stjórnendur ekki fyrirtæki,“ segir Trausti og bætir við: „Með því að hafa Mánaðarlegar árangursmælingar og bera niðurstöður þeirra saman við fjárhags/framleiðslu/sölutölur og upplifun viðskiptavina er hægt að meta heildarárangur stjórnenda.“

Framtíðarsýn CEO HUXUNAR er að koma Mánaðarlegum árangursmælingum inn á erlenda markaði. ,,Við viljum byrja á Noregi þar sem efnahagslífið er áhugavert og við getum verið nálægt höfuðstöðvum CEO HUXUNAR hér á landi. Mánaðarlegar árangursmælingar er hugbúnaður og þjónusta sem er sífellt í þróun. Um leið og við förum inn á stærri markaði, viljum við gera lausnir okkar enn aðlagaðri að fjölbreyttu starfsumhverfi. Við erum með eftirsótta vöru á heimamarkaði, sem er núna ný á alþjóðamarkaði og viljum veita fleirum aðgang að því tækifæri að virkja þann auð sem skiptir hvað mestu máli - mannauðinn,” segir Trausti Harðarson að lokum.