Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sunds/IceCapital segir alla lánasamninga sem Sund/IceCapital gerðu við föllnu bankana vegna hlutabréfakaupa í þeim hafi verið þess eðlis að einungis mátti nýta fjármunina til að kaupa hlutabréf í bönkunum sjálfum. Að hans mati þurfa dómstólar að skera úr um lögmæti slíkra lána. „Þessir lánasamningar sýna geggjunina. Málið sem verður tekið fyrir á mánudag er vegna lánasamnings sem bannar að lánið sé notað til annars en að kaupa hlutabréf í Kaupþingi. Þetta voru peningar sem fóru út af reikningi A og yfir á reikning B hjá Kaupþingi. Í staðinn komu inn hlutabréf á vörslureikninginn hjá Sundi.

Í Glitnismálinu var samskonar lánasamningur gerður. Það var verið að selja þeim hlutabréf í Glitni og það stendur í lánasamningnum að það megi bara nota féð til að kaupa þau. Þetta var gert í lok mars 2008. Þeir fengu tölvupóst klukkan 23:49 að kvöldi og sagt að Glitnir muni lána fyrir kaupunum. Ef þeir segðu já þá væri hægt að keyra kaupin í gegn morguninn eftir. Kaupin voru síðan keyrð í gegn og bréfin skráð á nafn Sunds, en það leið mánuður þangað til að gengið var frá lánasamningnum.“

Hreinsuðu uppgjör

Samkvæmt rannsóknarskýrslu Alþingis fóru ofangreind viðskipti fram 31. mars 2008, á síðasta degi fyrsta ársfjórðungs. Í þeim keypti Sund/Ice- Capital hlutabréf í Glitni fyrir fjóra milljarða króna með fjármögnun frá Glitni. Viðskiptin komu í veg fyrir að hlutabréfin væru skráð í eigu Glitnis í uppgjöri fyrsta ársfjórðungs.

Sund/IceCapital keypti einnig hlut í Landsbankanum fyrir 2,2 milljarða króna þann 30. júní 2008, á síðasta degi fyrir hálfsársuppgjör bankanna. Viðskiptin voru með síðustu stóru viðskiptum sem áttu sér stað með bréf í Landsbankanum fyrir bankahrun. Seljandi bréfanna var Landsbankinn sjálfur. Þessi viðskipti eru á meðal þeirra sem eru til skoðunar hjá embætti sérstaks saksóknara um meinta markaðsmisnotkun Landsbankans, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .