Eins og greint var frá í gær hefur bandaríska flugfélagið AMR, móðurfélag American Airlines og American Eagle, óskað eftir greiðslustöðvun, sem jafnan er undanfari gjaldþrotabeiðni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bandarískt flugfélag fer fram á greiðslustöðvun og reyndar hafa flest af stóru flugfélögunum vestanhafs á einhverjum tímapunkti óskað eftir greiðslustöðvun (e. chapter 11).

Í flestum tilvikum hefur flugfélögunum verið bjargað þannig að nýr eigandi hefur fengið að kaupa eignir félagsins í sátt við kröfuhafa. Það ferli fer allt fram í gegnum dómsstóla. Í öðrum tilvikum hafa flugfélög nýtt greiðslustöðvunina til að koma fjárhag sínum á rétt ról, og í samstarfi við viðeigandi dómsstóla fengið greiðslustöðvuninni aflétt.

En síðan eru auðvitað dæmi þess að flugfélög, af öllum stærðum, hafa endað þetta ferli í gjaldþroti. Eitt frægasta gjaldþrot bandarískrar flugsögu er sjálfsagt gjaldþrota flugrisans Pan Am. Það tók þó langan tíma að vinna úr því gjaldþroti og segja má að ferlið hafi tekið um tvö ár.

Boeing 747-100 vélar í eigu Pan Am flugfélagsins.
Boeing 747-100 vélar í eigu Pan Am flugfélagsins.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Boeing 747-100 vélar í eigu Pan Am flugfélagsins.

Pan Am var eitt stærsta – og líklega frægasta – flugfélag Bandaríkjanna í áratugi. Félagið hafði vaxið jafnt og þétt frá stofnun þess árið 1927, en á áttunda áratugnum fór heldur að halla undan fæti hjá félaginu.

Í stuttu máli má rekja brotlendingu félagsins til of mikilla fjárfestinga í nýjum vélum, m.a. í Boeing 747 breiðþotum. Hækkandi eldsneytisverð og röð óhappa gerði síðan endanlega út um félagið í lok níunda áratugarins þó félagið hafi starfað allt til ársins 1991. Frægasta slys Pan Am er án efa Lockerbie slysið þar sem vél félagsins var sprengd í loft upp af líbönskum hryðjuverkamanni yfir Lockerbie í Skotlandi.

Pan Am varð gjaldþrota í byrjun árs 1991. Delta Air Lines keypti stóran hluta þrotabúsins, þ.m.t. 45 flugvélar og landgang Pan Am á John F. Kennedy flugvelli í New York, fyrir 416 milljónir Bandaríkjadala. Seinna sama ár yfirtók Delta alla starfsemi Pan Am en rak stóran hluta hennar þó áfram undir nafni Pan Am. Þar var helst um að ræða flug frá Flórída og öðrum suðurríkjum til Rómönsku Ameríku og Suður Ameríku.

Sú starfsemi rann þó skeið sitt á enda og eftir misheppnaðar björgunaraðgerðir í lok árs var félagið neytt til að lýsa yfir gjaldþroti.

Þess má geta að nýlega hófst framleiðsla á sjónvarpsþáttum vestanhafs sem kenndir eru við flugfélagið Pan Am. Þættirnir lýsa lífi flugáhafnarmeðlima hjá félaginu en á sínum tíma þótti eftirsóknarvert að starfa fyrir þetta risavaxna flugfélag. Þættirnir eru nú sýndir á Skjá einum.

Úr leikinni þáttaröð ABC sjónvarpsstöðvarinnar um Pan Am flugfélagið.
Úr leikinni þáttaröð ABC sjónvarpsstöðvarinnar um Pan Am flugfélagið.

Úr leikinni þáttaröð ABC sjónvarpsstöðvarinnar um Pan Am flugfélagið.