Björgvin Ingi Ólafsson hagfræðingur var í lok september ráðinn framkvæmdastjóri Viðskipta og þróunar hjá Íslandsbanka. Er þar um að ræða nýtt svið sem sett var á fót hjá bankanum. „Mér líkar nýja starfið afskaplega vel,“ segir Björgvin um nýju vinnuna. Björgvin Ingi kemur til Íslandsbanka frá Meniga þar sem hann starfaði sem fjármálastjóri um tíma. Þar áður bjó hann í Bandaríkjunum þar sem hann starfaði um tveggja ára skeið hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company.

Hann er þó ekki Íslandsbanka ókunnur því hann starfaði hjá bankanum frá árinu 2000 til 2005. Björgvin er með MBA-gráðu frá Kellogg School of Management og B.Sc.-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands. Þegar Björgvin starfaði fyrir McKinsey, sem er eitt stærsta stjórnunar- og ráðgjafafyrirtæki heims, hafði hann að atvinnu að veita mörgum af stærstu fyrirtækjum í heimi strategíska ráðgjöf.

Spurður hvers vegna hann hafi ákveðið að koma aftur heim til Íslands úr góðu starfi í Bandaríkjunum segir Björgvin að þetta sé spurning um persónulegan „preference“ og þau tækifæri sem bjóðist. „Það flytur auðvitað enginn til Íslands af því að launamöguleikarnir eru svo miklir, það er af öðrum ástæðum. En útgjöldin eru að vísu minni hér heima, maður sleppur til dæmis við að greiða háar fjárhæðir í húsaleigu og barnagæslu. Og það er gott að koma heim.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .