Dorothy Watson, bakari, sem hefur rekið bakarí í 67 ár hyggst fara á eftirlaun 100 ára að aldri. Watson rak bakarí og litla búð í þorpinu Guiting Power í Gloucestershire. Guardian greinir frá .

„Ég ætlaði mér aldrei að verða bakari, það var hugmynd eiginmannsins míns," sagði Watson í samtali við Guardian. Watson bætir við að hún hafi gifst eiginmanni sínum 1941 og þau hafi í staðinn fyrir að halda veislu farið í kvikmyndahús eftir athöfnina.

„Ég vakna enn klukkan fimm að morgni og vinn þangað til bakaríið lokar klukkan 5. Við fáum um það bil 40 einstaklinga til okkar og við finnum alltaf eitthvað til að tala um. Viðskiptavinir okkar eru meira eins og vinir okkar heldur en kúnnar."

Hún bætir við að eftir 100 ára afmælisdaginn sinn hafi hún ákveðið að fara loksins á eftirlaun. „Ég hef átt mjög gott líf. Ég hyggst flytja í lítinn sumarbústað og sonur minn ætlar að baka brauð fyrir okkur."