Saksóknari fór í morgun fram á að Hannes Smárason, fyrrum stjórnarformaður og forstjóri FL Group, yrði dæmdur í 2-3 ára fangelsi fyrir fjárdrátt og umboðssvik.

Saksóknari hélt því fram í morgun að það væri yfir allan skynsamlegan vafa hafið, að brot Hannesar varði við lög. Fram kom í gær í málflutningnum að lítil sem engin gögn um sjálfa millifærslu á 2,8 milljörðum króna væru til staðar.

Málavextirnir

Ákæran snýr að millifærslu á 2.875 milljónum íslenskra króna af bankareikningi FL Group hjá Kaupþingi í Lúxemborg í apríl árið 2005.  Hannes var þá stjórnarformaður félagsins og eini prófkúruhafinn hjá bankanum.

Um 46 milljónir Bandaríkjadala voru millifærðar af reikningi FL Group hjá Danske Bank inn á reikning félagsins hjá Kaupþingi banka í Lúxemborg. Stærstum hluta fjárhæðarinnar var skipt yfir í 2.875 milljónir króna. Hannes hafi svo látið millifæra þá fjármuni á reikning Fons hjá sama banka.

Þessari upphæð var síðan skipt í danskar krónur og fært til félagsins Fred. Olsen & Co, sem átti þá Sterling Airlines.

Í ákærunni segir að Hannes hafi gefið fyrirmæli um millifærsluna án vitundar eða samþykkis forstjóra eða annarra stjórnenda.