Franskur saksóknari fer fram á þriggja ára skilorðsbundinn dóm yfir Björgólfi Guðmundssyni, fyrrverandi aðaleiganda Landsbankans, Gunnari Thoroddsen, fyrrverandi yfirmanni Landsbanks í Lúxemborg og fimm öðrum einstaklingum. Frá þessu er greint á vef franska blaðsins Les Echos en Mbl.is greindi fyrst frá hér á Íslandi.

Aðalmeðferð málsins lauk á þriðjudaginn en farið er fram á þriggja ára fangelsi yfir Björgólfi sem og að hann greiði 300 þúsund evrur í bætur vegna aðkomu sinnar að málinu. Málið tengist meintum blekkingum vegna veðlána sem bankinn veitti.

Málið er fyrsta sinna tegundar, þ.e. þar sem að íslenskir bankamenn eru saksóttir á erlendri grundu vegna efnahagsbrotamála. Tekist er á um hvort Landsbankinn í Lúxemborg hafi blekkt viðskiptavini sína sem Landsbankinn veitti lausafjárlán með veði í fasteignum. Eftir hrun tapaði stór hópur fólks talsverðu fé vegna lánanna. Lögmaður Landsbankans hafnaði ásökununum í ákærunni.