Eyrún Anna Einarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri eignastýringar og miðlunar hjá Landsbankanum. Hún tekur við starfinu af Hrefnu Ösp Sigfinnsdóttur sem var nýverið ráðin framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.

Ásamt Eyrúnu voru þau Bergsteinn O. Einarsson og Sara Pálsdóttir nýlega ráðin í framkvæmdastjórn bankans. Bergsteinn var ráðinn framkvæmdastjóri áhættustýringarsviðs og Sara tók við samfélagssviði, sem er nýtt svið hjá bankanum.

Sjá einnig: Bergsteinn og Sara í framkvæmdastjórn

Eyrún Anna Einarsdóttir hóf störf hjá Landsbankanum árið 2006. Hún starfaði fyrst við safnastýringu sem heyrði undir eignastýringu bankans og stýrði þeirri einingu á árunum 2010-2012. Undanfarin níu ár hefur Eyrún verið forstöðumaður viðskiptalausna á sviði eignastýringar og miðlunar þar sem hún hefur verið ábyrg fyrir árangursviðmiðum, áætlanagerð og þróun, sem og flestum breytingum og rekstrarmálum sviðsins. Hún hefur leitt innleiðingu á mörgum stærri verkefnum bankans á sviði verðbréfaviðskipta, ásamt því að vera vörustjóri fyrir sparnað og ávöxtun hjá bankanum.

Eyrún er með B.Sc.-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, M.Sc.-gráðu í fjárfestingastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og próf í verðbréfaviðskiptum.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans:

„Eyrún er reynslumikill stjórnandi sem hefur starfað lengi á markaðnum og þekkir vel þær daglegu áskoranir sem viðskiptavinir standa frammi fyrir. Eignastýring og miðlun snýst um traust og við leggjum áherslu á langtíma viðskiptasambönd. Eyrún hefur sýnt og sannað að hún er öflugur leiðtogi og hefur sterka sýn á það hvernig Landsbankinn getur skarað fram úr í þjónustu við viðskiptavini. Hún sér hvar tækifæri bankans liggja við að móta nýja tíma í fjármálaþjónustu, auka ánægju viðskiptavina og skila góðri afkomu fyrir bankann.“