*

mánudagur, 1. mars 2021
Innlent 25. ágúst 2020 20:29

Fer gegn eigin gjaldeyrisstefnu

Hagfræðingur telur að Seðlabanki Íslands hafi undanfarið gengið gegn eigin stefnu í gjaldeyrismálum, hann kallar eftir útskýringu.

Alexander Giess
Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri er formaður peningastefnunefndar en nefndin mun taka vaxtaákvörðun á morgun.
Gígja Einarsdóttir

„Síðustu mánuði hefur Seðlabankinn verið að grípa inn í á gjaldeyrismarkaði annað slagið. Opinbera stefna bankans er þó að leggjast bara á móti þegar spíralar, annað hvort til veikingar eða styrkingar, myndast á mjög stuttum tíma. Miðað við hreyfingar á síðustu vikum þá er einhver önnur stefna í gangi,“ segir Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur.

Seðlabankinn hefur undanfarna daga keypt íslenskar krónur með notkun á gjaldeyrisforða bankans. Opinber stefna hans er þó að grípa ekki inn í nema til að vinna gegn spíralmyndun. Samkvæmt Konráði myndi gjaldeyrisforði Seðlabankans klárast á einu og hálfu ári með þessu áframhaldi.

„Í síðustu viku virðist Seðlabankinn hafa gripið inn í meira en hann hefur nokkurn tímann gert til að leggjast gegn veikingu krónunnar. Frá mánudegi til fimmtudags í síðustu viku námu kaup Seðlabankans um tveimur milljörðum króna,“ segir Konráð og kallar eftir útskýringum á þessum inngripum en peningastefnunefnd mun taka vaxtaákvörðun á morgun.

„Við höfum samt séð bankann leggjast enn harðar gegn styrkingu krónunnar, þegar hann var að safna forða frá árunum 2014-2017. Að sjá hann fara af þessum krafti gegn veikingu krónunnar svona marga daga í röð er alveg nýtt,“ segir Konráð enn fremur.

Annar viðmælandi Viðskiptablaðs segir að lækkun krónunnar hafi strax haft áhrif á vísitölu neysluverðs sem gæti skýrt aukinn áhuga Seðlabankans á inngripum. Áhrif gengislækkunar hafi að miklu leiti komið fram en þó ekki að fullu.