*

föstudagur, 19. júlí 2019
Erlent 23. október 2015 16:20

Juncker: Gullöld Evrópu gæti verið að ljúka

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnarinnar, sagði langtímahnignun bíða Evrópusambandsins.

Ritstjórn

Draumurinn um efnahagslega sameinaða Evrópu er nú í hættu, segir Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Aðskilnaðarstefnur og annars konar samstöðubrestir ógna Evrusvæðinu, að hans mati.

„Evrópusambandinu er ekki að ganga svo glatt," sagði Juncker. „Við verðum að tryggja að vonir og framtíðaráform Evrópu lifi áfram."

Hlutfall Evrópusambandsins af heimsframleiðslu fer lækkandi og mun brátt verða rétt rúmlega 15% af vergri heimsframleiðslu. Heil 80% hagvaxtar í heiminum á uppruna sinn utan evrusvæðisins, sagði Juncker.

Hinir svokölluðu "Brexit"-menn bresku vilja einmitt meina að England ætti að að segja sig úr ESB og mynda sambönd með vaxandi hagkerfum. Það sé villa að vera „hlekkjuð við látið lík". 

Juncker segir þó að þessi vandkvæði Evrusvæðisins undirstriki hversu nauðsynlegt það er að heimsálfan standi saman, og að tími sé ekki kominn til þess að skipta Evrópu upp í stéttir og landssambönd - það sé mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að vera sameinuð.