Hjörtur Erlendsson var ráðinn forstjóri Hampiðjunnar í lok mars. Hann tók við af Jóni Guðmanni Péturssyni, en hafði verið staðgengill hans um skeið. Líta má líka á starfið sem aðstoðarforstjóra. Hjörtur hefur starfað hjá Hampiðjunni í 29 ár. Fyrir þann tíma var hann vélstjóri á Guðmundi Kristni SU 404 og einnig háseti á dekki. Þá var hann einnig háseti á minni bát sem bróðir hans gerði út á Faxaflóa.

Þegar Hjörtur byrjaði að starfa hjá Hampiðjunni var hann framleiðslustjóri þráða-, kaðla-, og fléttivéladeildar hér heima á Íslandi allt til ársins 1991. Síðar varð hann framleiðslustjóri yfir öllu fyrirtækinu og var það til ársins 2003. Árið 2003 tók Hampiðjan yfir danska netaframleiðandann Utzon AS. Framleiðslan var síðan flutt til Litháen og varð þar að Hampiðjan Baltic.

Hjörtur á mörg áhugamál. Hér áður fyrr veiddi hann með konunni sinni og öðrum veiðifélögum. Undanfarin sumur hefur dregið úr því vegna þess að veiðifélagarnir eru komnir sífellt meira í golf. Hann ferðast líka mikið um hálendið.

„Áður fyrr voru þetta meira jeppaferðir, bæði á vetri og sumri en núna erum við farin að ganga miklu meira,“ segir hann. Hann segist ekki vera farinn að skipuleggja göngur í sumar að því undanskildu að hann fari einu sinni til tvisvar í Þórsmörk á hverju sumri. „Þar er mikið af skemmtilegum gönguleiðum,“ segir hann. Þar sé líka brekka sem Hampiðjan hafi tekið að sér að rækta upp með góðum árangri. „Það er alveg árvisst að það verður að fara og kíkja á brekkuna,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .