Leigjandi hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins (ÖBÍ), hefur stefnt Reykjavíkurborg til að fá viðurkennt að óheimilt sé að mismuna borgurum eftir búsetu. Reykjavíkurborg hefur neitað að greiða henni sérstakar húsaleigubætur vegna þess að hún leigir húsnæði hjá hússjóði Öryrkjabandalagsins en ekki hjá Félagsbústöðum hf. eða  á almennum markaði. Öryrkjabandalagið styður Guðrúnu Birnu í réttindabaráttu hennar eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Öryrkjabandalaginu.

Í tilkynningunni segir að bandalagið hafi barist fyrir því síðan 2009 að reglum borgarinnar um sérstakar húsaleigubætur verði breytt þannig að leigjendur hjá hússjóði ÖBÍ eigi rétt á sérstökum húsaleigubótum.

Innanríkisráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu í nóvember 2010 að regla borgarinnar um að einungis þeir sem leigja hjá Félagsbústöðum hf. eða á almennum markaði geti átt rétt á sérstökum húsaleigubótum, sé í andstöðu jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og til þess fallin að mismuna. Beindi ráðuneytið þeim tilmælum til borgarinnar að breyta reglum sínum. Þrátt fyrir tilmæli ráðuneytisins og ítrekaðar áskoranir Öryrkjabandalagsins hefur borgin þráast við að breyta reglunum.