Ásthildur Sturludóttir sveitarstjóri Vesturbyggðar sagði ekkert að því að nýta einkafjármagn til uppbyggingar í vegakerfinu í pallborðsumræðum á Iðnþingi sem nú er í gangi í Hörpu.

„Ég greiði tvenna vegatolla, í fyrsta lagi með Breiðafjarðarferjunni Baldri, sem er skilgreindur sem þjóðvegur, og hins vegar í Hvalfjarðargöngunum,“ sagði Ásthildur.

„Þetta tókst vel með Hvalfjarðargöngunum og við eigum að nýta þessa leið, þetta er fljótlegasta leiðin.“

Tók Jón Gunnarsson samgönguráðherra undir með þessum orðum og sagði þau hljóma eins og konfekt í sín eyru.

Jón hafði rætt um að þrátt fyrir metnaðarfulla samgönguáætlun sem síðasta þing hafi sett fram þá hafi hún ekki verið fjármögnuð og vísaði hann jafnframt í þær upplýsingar sem fram komu á þinginu að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í samgöngukerfinu væru 65 milljarðar.

Með betlstafinn í höndunum

„Ég fer inn á ríkisstjórnarfund í fyrramálið með betlistafinn í höndunum,“ sagði Jón, en á þinginu kom fram að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í samgöngukerfinu næmi 65 milljörðum króna.

„Þess vegna erum við að velta upp möguleikum um aukna aðkomu einkaaðila að uppbyggingu í samgöngumálum.“

Sagði hann að þegar við höfum úr 10 til 14 milljörðum að moða á ári að moða í samgöngumál, þá þyrfti að forgangsraða. Það væri þrátt fyrir að nú hefði verið aukið við ríkisútgjöldin hvað mest í sögunni milli ára, eða um 52 milljarða.

Jafnframt væri ljóst að á næsta ári væri ekki hægt að bæta jafnmiklu við, kannski bara um 25 milljörðum, því ríkisfjármálin þyrftu að vera ábyrg.

„Stærsti hlutinn fór í heilbrigðis- og menntamálin, það var sátt um það,“ sagði Jón.

Vanþróað samgöngukerfi

Einnig tók Baldvin Einarsson, sviðstjóri hjá verkfræðistofunni Eflu þátt í umræðunum en hann var sagður hafa komið að flestum stærri vegaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu.

„Samgöngukerfið er frekar vanþróað miðað við umferðarþunga,“ sagði Baldvin.

„Auk þess er slysatíðnin hér hærri en annars staðar auk þess sem tengingum er ábótavant.“

Sagði hann að ekki skyldi útiloka að þeir sem njóti samgöngubótanna eigi að greiða fyrir þær.

„Ef við setjum þetta í samhengi þá kostar alvarlegt slys um 100 milljónir króna, en ein mislæg gatnamót frá um 500 milljóna til 1.000 milljóna,“ sagði Baldvin.

„Stór hluti af þessum kostnaði er kostnaður í heilbrigðiskerfinu.“

Jón Gunnarsson nefndi þá að gott raforkudreifikerfi sem og ljósleiðarakerfi hefðu verið byggð upp í kringum stórnotendur í orkufrekum iðnaði og gagnavinnsluþjónustu. „Af hverju getur þessi litla þjóð í svona stóru landi byggt upp raforkukerfi sem hefur skapað okkur svona lágt raforkuverð?“ spurði hann.

„Það er vegna þess að við fengum stóra aðila til að byggja upp kerfið sem við hin njótum góðs af.“

„Eru ekki ferðamenn þá einmitt sú stjóriðja sem þarf til að byggja upp samgöngukerfið?,“ spurði Ásthildur þá og vísaði þá í fyrri orð Jóns um að stóriðjan hefði komið að uppbyggingu raforkukerfisins.