*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 1. ágúst 2019 11:55

Fer upp í 42% eignarhlut í HB Granda

Guðmundur Kristjánsson fær greidd hlutabréf að andvirði 4,6 milljarða króna fyrir sölufélög Icelandic í Asíu.

Ritstjórn
Guðmundur Kristjánsson, kenndur við Brim, og forstjóri HB Granda mun fljótlega stýra félagi með nafnið Brim á ný ef hluthafafundurinn samþykkir nafnabreytinguna.
Haraldur Guðjónsson

Við kaup HB Granda á sölufélögum í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur (sem áður hét Brim), félags Guðmundar Kristjánssonar forstjóra fyrirtækisins, mun eignarhlutur hans í gegnum ÚR í HB Granda hækka í 41,3%. Eykst hlutafé HB Granda um 7,3% en ÚR og tengdir aðilar munu eiga samtals 42,4% af virku hlutafé eftir kaupin.

Þetta kemur fram í kynningu fyrir boðaðan hluthafafund HB Granda 15. ágúst næstkomandi en kaupverð sölufélaganna fjögurra er þar sagt nema samanlagt 34,9 milljónum Bandaríkjadala. Samsvarar það 4,3 milljörðum króna á núverandi gengi, en kaupverðið er greitt með útgáfu 133.751.606 hluta, sem þegar þetta er skrifað eru verðmetnir á 4,6 milljarða króna.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er um að ræða sölufélög í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína, ásamt þjónustufélagi á Íslandi tengdu þeim. Eru þessi sölufélög með allt að 30 ára sögu á mörkuðunum og seldu þau 38.100 tonn af sjávarafurðum á síðasta ári fyrir alls 167 milljónir dala, eða sem samsvarar 20,6 milljarða króna.

Um er að ræða félögin Seafood Services, sem er þjónustufélagið á Íslandi, Icelandic sem selur til Japans, Icelandic Hong Kong og Icelandic China. Keypti ÚR (þá Brim) félögin árið 2016 af Icelandic Group, sem var stýrt af Framtakssjóði Íslands, og hefur sala félagsins aukist síðan um 85% og tekjurnar aukist um 68% og EBITDA félaganna sjöfaldast.

Einnig hefur verið rætt um þá tillögu sem liggur fyrir fundinum að HB Grandi breyti um nafn og taki upp nafn Brims, félagsins sem Guðmundur Kristjánsson keypti í HB Granda í gegnum, en hefur síðan breytt um nafn. Sagði Viðskiptablaðið fyrst frá því á sínum tíma þegar Guðmundur keypti þriðjungshlut í HB Granda af félögum tengdum Kristjáni Loftssyni fyrir um 22 milljarða króna.

Fleiri fréttir um málefni HB Granda og Brim: