Garðar Stefánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Via Health ehf., en hann seldi sig nýlega út úr Norðursalti á Reykhólum.

„Hugmyndin er að koma á markað náttúrulegum sætuefnum í stað sykurs,“ segir Garðar. ,,Við notum Steviu, sem er planta upprunnin frá Suður-Ameríku en laufblöðin á henni eru 300 sinnum sætari en sykur. Innfæddir hafa notað hana til bragðbætis alla tíð.“

Garðar hefur áður unnið að uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækis þegar hann stofnaði Norðursalt á Reykhólum.

,,Já, ég fer úr saltinu í sykurinn, en ein af okkar endanlegu vörum lítur út og bragðast eins og sykur. Ég kem fyrst inn í Via Health sem ráðgjafi en við höfðum verið að gera svipaða hluti með Norðursalt. Við undirbúum fyrirtækið fyrir útflutning, markaðssetningu og vörumerkjaþróun með hinu nýja vörumerki Good Good, sem við erum að ná árangri með á erlendum mörkuðum.“

Garðar kláraði hagfræðinám við Háskóla Íslands árið 2008. ,,Þá var ekki beinlínis gott að útskrifast sem hagfræðingur og ég vildi sérhæfa mig í rekstrarlegum þáttum, með áherslu á nýsköpun,“ segir Garðar sem fór í kjölfaríð í nám í nýsköpunar- og markaðsfræði við Háskólann í Árósum.

,,Ég hef alltaf haft áhuga á vörumerkjaþróun og hvernig á að búa til þessi tilfinningalegu tengsl, þetta samband milli neytendans og vörunnar. Við fórum þarna djúpt í menningargrunn neytendasamfélagsins og inn á svið upplifana.“

Nánar er fjallað um máið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.