Í kjölfar 1% stýrivaxtahækkunar Seðlabanka Íslands úr 7,25% í 8,25% er áhugavert að skoða þróun vaxtamunar við útlönd á mælikvarða stýrivaxta. Í gær var vaxtamunur á mælikvarða stýrivaxta 4,9% en verður 5,9% í dag þegar vaxtahækkunin tekur gildi, að því gefnu að stýrivextir haldist óbreyttir í viðskiptalöndunum. Í Vegvísi Landsbankans í gær var bent á að á mælikvarða þriggja mánaða millibankavaxta hefur hækkunin þegar komið inn og mælist vaxtamunurinn í gær 6,08% en var 5,28% áður en Seðlabankinn tilkynnti um vaxtahækkunina sl. fimmtudag.

"Ef svo fer að Seðlabankinn hækki stýrivexti í 11,5%, eins og í síðustu uppsveiflu, mun vaxtamunur við útlönd aukast enn frekar. Ef tekið er mið af spá fjármálafyrirtækisins CitiGroup um þróun stýrivaxta erlendis, má gera ráð fyrir að skammtímavaxtamunur verði 8,2% í upphafi árs 2006. Þess skal geta að í spá CitiGroup er gert ráð fyrir að vextir erlendis hækki á tímabilinu en ef það gengur ekki eftir er ljóst að vaxtamunurinn verður enn meiri. Í síðasta vaxtahækkunarferli Seðlabankans fór vaxtamunurinn hæst í 7% í lok árs 2001 en tók síðan að lækka jafnt og þétt, samhliða stýrivaxtalækkun, fram í mars 2003 þegar vaxtamunurinn fór lægst í 2,6%," segir í Vegvísinum.

ÞAr segir ennfremur að ljóst er að útlit fyrir hækkandi vaxtamun við útlönd styður við sterkt gengi krónunnar. Mögulegt er að aukinn vaxtamunur muni jafnvel valda frekari styrkingu en þegar er orðin. Ástæðan er m.a. sú að hlutfallslega ódýrt lánsfé streymir inn í landið. Á móti kemur að eftir því sem gengi krónunnar styrkist meira, því meiri hætta hlýtur að vera á því að gengislækkun þurrki út ávinninginn af lægri vöxtum. Ef tekið er erlent lán til 2 ára og vaxtamunurinn er 6%, má krónan veikjast um ríflega 12% áður en lántakinn verður fyrir tapi. Hafi lántakinn greitt hluta af láninu áður en til gengislækkunarinnar kemur, mætti gengislækkunin vera enn meiri.
Krónan hefur nú styrkst um 7,5% frá áramótum, bandaríkjadalur er 12% ódýrari en í upphafi árs, evran 6,2% ódýrari og pundið 4% ódýrari. Þetta þýðir lækkun á innflutningsverði en sömuleiðis lækkun á útflutningsvirði íslenskra fyrirtækja.