Ferðaþjónusta bænda hlaut umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs en þau voru afhent fyrir helgi í lokahófi árlegrar ferðamálaráðstefnu á Kirkjubæjarklaustri. Ferðaþjónusta bænda fékk verðlaunin fyrir það að hafa nýlega uppfyllt viðmið Green Globe 21 um sjálfbæra þróun og hafa þar með náð öðru af þremur þrepum vottunarkerfisins. Verðlaunagripurinn var unninn af Aðalsteini Svani Sigfússyni myndlistarmanni en hann var unninn úr lerki og gabbrói.

Í umsögn með verðlaununum sagði að Ferðaþjónusta bænda hefði verið leiðandi afl í umhverfismálum á landsbyggðinni en hún hefði haft það að markmiði að allir ferðaþjónustubændur tækju upp umhverfisstefnu innan ákveðinna tímamarka. Ferðamálaráð byggði val sitt á handhafa Umhverfisverðlaunanna 2004 fyrst og fremst á markvissri umhverfisstefnu Ferðaþjónustu bænda, svo og góðri eftirfylgni félagsins, starfsfólki þess og víðtækum áhrifum stefnunnar.