Gistinóttum á hótelum í janúar fjölgaði frá fyrra ári um 4.600 í 40.600 úr 36.000 sem er 13% aukning. Þetta kom fram í frétt Hagstofunnar í morgun. Fjölgun gistinátta var bæði vegna Íslendinga og útlendinga, þó var fjölgun gistinátta Íslendinga öllu meiri eða um 23% og útlendinga 9%.

Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum um 8,5% og fjöldi gistinátta fór úr 28.900 í 31.300. Gistinóttum fjölgaði á öllum landshlutum nema Suðurlandi, þar dróst fjöldi gistinátta saman um 17%. Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum eða um 80%. Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum um 50% og á Austurlandi um 3%. Að meðaltali fjölgaði gistinóttum utan höfuðborgarsvæðisins um rúmlega 30%. Hlutfallsskipting milli höfuðborgarsvæðisins annars vegar og utan þess hins vegar er svipuð og hún hefur verið undanfarin ár.

Fjölgun gistinátta útlendinga hefur aukist frá sama mánuði fyrir ári undanfarna 9 mánuði þrátt fyrir hátt gengi krónunnar sem verður að teljast afar jákvæð þróun fyrir ferðamannaiðnaðinn eins og bent er á í Morgunkorni Íslandsbanka.