Aðilar innan ferðaþjónustunnar eru almennt þokkalega bjartsýnir fram á haust, segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. „Einstaklingsbókanir eru góðar en við vitum ekki um hópbókanir,“ segir hún í samtali við Viðskiptablaðið.

Erna segir að dregið hafi úr komu erlendra gesta hingað til lands um tíu prósent í febrúar samanborið við sama mánuð í fyrra. „Við verðum hins vegar að horfa til þess að erlent verkafólk er líka inni í þessum tölum. Því hefur fækkað,“ segir hún.

Þá hafi dregið úr ferðum erlendra viðskiptamanna hingað til lands. „Ég held það hafi ekki orðið mikil fækkun á komu erlendra ferðamanna til landsins.“

Erna segir að lækkun á gengi krónunnar hafi vissulega skapað tækifæri fyrir ferðaþjónustuna. „Við megum hins vegar ekki gleyma því að það er kreppa í okkar helstu viðskiptalöndum. Þegar kreppir að fækkar fólk sínum skemmtiferðum.“

Það eigi eftir að koma betur í ljós hversu mikil áhrif heimskreppan eigi eftir að hafa á ferðaþjónustuna.