Röð kynningarfunda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu hefst í dag 13. nóvember í 5 borgum Evrópu, þar sem Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa, utanríkisráðuneyti, Útflutningsráð og Höfuðborgarstofa snúa bökum saman um að snúa vörn í sókn að því er kemur fram í fréttabréfi Samtaka ferðaþjónustunnar.

Þar kemur fram að meginmarkmið með ferðinni er að hitta söluaðila Íslands á erlendri grundu, ræða stöðu mála á Íslandi, svara fyrirspurnum viðstaddra og fullvissa um að óstaðfestar fregnir af vandræðum séu ekki réttar og hvetja til dáða í sölu á Íslandsferðum. Einnig hafa verið skipulagðir blaðamannafundir í hverju landi.

Í ferðinni verður farið til Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Þýskalands (Frankfurt) og Frakklands. Að sinni var ákveðið að bíða með að kynna stöðu mála í Hollandi og Bretlandi. Starfsmenn Ferðamálastofu og formaður Ferðamálaráðs eru nú að kynna Ísland á World Travel Market ferðasýningunni í London en ekki þótti rétt að fara út í frekari aðgerðir þar fyrr en staða mála skýrist.

Fundaferðin hefst í Stokkhólmi fimmtudaginn 13. nóvember og daginn eftir er fundað í París. Á mánudeginum þar á eftir er síðan komið að Kaupmannahöfn, þá Frankfurt og endað í Osló. Fundirnir hefjast með ávarpi sendiherra á hverjum stað, formaður SAF mun kynna stöðu mála eins og hún snýr að fyrirtækjum, ferðamálastjóri mun þá fara yfir framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu og forstöðumaður Höfuðborgarstofu kynna sölumöguleika og nýjungar.