Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) mótmæla harðlega þeim skattahækkunum sem Alþingi samþykkti í gær en olíugjald og áfengisgjald hækkuðu um 12%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SAF.

„Ferðaþjónustan er ein af þremur meginstoðum íslensks atvinnulífs og sú grein sem hefur vaxið einna mest og hefur mikla möguleika á áframhaldandi vexti ef rekstrarumhverfi hennar er viðunandi,“ segir í tilkynningunni.

„Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa mörg gengið í gegnum mikla erfiðleika s.s. vegna erlendra lána og gríðarlegra kostnaðarhækkana vegna gengisfalls krónunnar og má þar nefna olíuverðið sem er að sliga hópferðafyrirtækin og önnur fyrirtæki sem reka jeppaferðir og bílaleigur og verð á áfengi og öðrum innfluttum aðföngum veitingastaða.“

Þá segir jafnframt í tilkynningunni að það sé öllum ljóst að meginviðfangsefnið framundan sé að halda fyrirtækjunum á lífi.

„Það verður ekki gert með hækkun gjalda,“ segir í tilkynningunni.