Danska kvikmyndafyrirtækið Nordisk Film undirbýr nú kvikmynd um danska ferðaskrifstofukónginn Símon Spies, sem lést árið 1984.

Eignir hans voru þá metnar á um 1 milljarð danskra króna, og arfleiddi hann eiginkonu sína að helmingi þeirrar upphæðar.

Spies var um áraraðir vinsælt fréttaefni í norrænum fjölmiðlum, enda umsvif hans mikil á þeirra tíma mælikvarða og maðurinn litríkur og líf hans fjörugt.

Hann tók virkan þátt í gjálífi 7. og 8. áratugarins, þar sem eiturlyfin lágu á glámbekk og kampavínið var óspart útilátið. Hann átti lengi vel í útistöðum við dönsk skattayfirvöld.

Frægt er að þegar hann var dæmdur til að greiða gríðarháa fjárhæð í skattskuldir spurðu fjölmiðlar hann hvernig hann hygðist greiða upphæðina, og hann svaraði því svo: „Maður skrifar ávísun.”

Vildi bollur í morgunmat

Hann hóf feril sinn í samgönguiðnaðinum með því að stofna skammlífa reiðhjólaleigu, en ferðaskrifstofu sína stofnaði hann um miðjan 6. áratuginn. Spies Rejser varð stærsta ferðaskrifstofa í Danmörku áður en yfir lauk, og einnig stofnaði hann leiguflugfélagið Conair, en það er nú í eigu MyTravel.

Hann atti lengi kappi við ferðaskrifstofuna Tjæreborg, sem stofnuð var af danska prestinum Eilif Krogager.

Spies hélt hirð ungra kvenna og var m.a. umtalaður fyrir „morgenbolledamer” sínar, sem útleggja má rúnstykkjakonur, en orðið „bolle” á dönsku þýðir jafnframt samfarir og hefur skírskotun til þess sem hann stundaði með umræddum konum í morgunsárið. Spies var fjórgiftur.

Hann var 63 ára gamall þegar hann kvæntist seinustu eiginkonu sinni, Janni Brodersen, sem þá var 21 árs gömul. Hann lést ári síðar og erfði hún auðæfi hans og fyrirtæki.

Að honum látnum spunnust að auki talsverðar deilur um veldi hans og var mikið fjallað um ekkju hans í fjölmiðlum.

Aðalleikarinn  í mynd Dags Kára

Danski leikarinn Nicolas Bro, sem lék m.a. áberandi hlutverk í kvikmynd Dags Kára Péturssonar, Voksne Mannesker, á að túlka ferðakónginn í væntanlegri kvikmynd.

Er hún byggð á ævisögu Spies eftir John Lindskog, sem hefur náð margfaldri metsölu í Danmörku.

Leikstjórinn, Kasper Barfod, segir í samali við business.dk að nú sé verið að fínslípa handritið og ganga frá lausum endum í fjármögnun, en hann vonist til að fyrstu tökur fari fram í haust.