Á síðasta ári var heildarkostnaður vegna ferðalaga hjá Reykjavíkurborg um 104 milljónir króna en til  samanburðar var kostnaðurinn kominn niður í rúmar 27 milljónir króna frá janúar til nóvember á þessu ári.

Ferðakostnaður Reykjavíkurborgar hefur því lækkað um 72% það sem af er á árinu miðað við sama tímabil árið 2008.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en þar segir að í rekstri borgarinnar hafi verið gripið til margvíslegra aðgerða til hagræðingar á öllum sviðum borgarinnar. Markmiðið sé að lækka rekstarkostnað en standa jafnframt vörð um grunnþjónustu, gjaldskrár og störf.

„Meðal þess sem hefur verið hugað sérstaklega að er að gæta aðhalds í ferðakostnaði starfsfólks, embættismanna og borgarfulltrúa,“ segir í tilkynningunni.   Fram kemur að Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, setti nýjar verklagsreglur um ferðir og ferðaheimildir á síðasta ári með það að markmiði að ná fram auknum sparnaði og hafa þær reglur þegar skilað umtalsverðum árangri.