Ferðamálaráð leggur til að fjárfesting í markaðssetningu og kynningu á Íslandi verði aukin frá því sem birtist í fjárlagafrumvarpi og horft verði til náins samstarfs við fyrirtæki í greininni við uppbyggingu á kynningar- og markaðsstarfi til lengri tíma.

Þetta kemur fram á vef Iðnaðarráðuneytisins en Ferðamálaráð hefur lagt fram tillögur til iðnaðarráðherra. Þar kemur fram að Ferðamálaráði er meðal annars ætlað að vera ráðherra til ráðgjafar um kynningarmál ferðaþjónustunnar og áætlanir í ferðamálum:

Þá leggur Ferðamálaráð einnig til að vinnu nefndar, sem nú vinnur úr tillögum ímyndarnefndar forsætisráðherra, verði hraðað og Promote Iceland verkefninu verði komið í framkvæmd eigi síðar en um áramót.

„Tryggt verði að hagsmunir og sjónarmið ferðaþjónustunnar verði í forgrunni við undirbúning, útfærslu og framkvæmd þessa mikilvæga verkefnis,“ segir í tillögum Ferðamálaráðs.

Þá er einnig lagt til að uppbygging markaðsstofa um landið verði studd og starf þeirra eflt m.a. í samræmi við tillögur nefndar um endurskoðun ferðamála. Markmiðið sé að styrkja rekstrargrundvöll, samræma aðgerðir og stuðla að heildstæðum skilaboðum um Ísland sem áfangastað – innanlands og utan.

Einnig er lagt til að í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og fleiri verði settur kraftur í að auka nýsköpun og efla vöruþróun í greininni t.d í menningar- og heilsutengdri ferðaþjónustu.

Að lokum leggur Ferðamálaráð til að komandi ferðamálaþing iðnaðarráðuneytisins verði nýtt til að koma þeim skilaboðum til landsmanna að í eflingu ferðaþjónustunnar felist einstök sóknarfæri fyrir íslenskt efnahagslíf.