Alls fóru tæplega 36 þúsund erlendir gestir um Leifsstöð í maí, samanborið við rúmlega 34 þúsund í sama mánuði í fyrra.

Fjölgunin nemur rúmlega 1.700 manns eða 5%. Inn í tölunum eru allir með erlent ríkisfang sem fara um flugstöðina og er vinnuafl því sem fyrr inn í þessum tölum.

Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu.

Þar kemur fram að sé litið til helstu markaðssvæða Íslands þá er fjölgun frá Mið-Evrópu, samdráttur frá N.-Ameríku en fjöldi Norðurlandabúa og Breta er nánast óbreyttur á milli ára.

„Í kjölfar nýrrar flugleiðar á milli Íslands og Kanada má greina fjölgun þaðan og athygli vekur einnig veruleg aukning á milli ára frá Þýskalandi og Hollandi,“ segir á vef Ferðamálastofu.

Að sögn Davíðs Jóhannssonar, forstöðumanns skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt, er jafnan talsvert um hópferðir í maí, bæði almenna ferðamenn og þá sem koma á ráðstefnur og í hvataferðir. Því getur fjöldinn sveiflast nokkuð á milli ára en ánægjulegt sé að sjá fjölgun nú.