Vidskiptaferdir.is er nýr ferðavefur þar sem fólk getur sjálft séð um að bóka flug, gistingu og bílaleigubíla hvar sem er í heiminum.

Markmið vefjarins er að gera bókanir erlendis aðgengilegar fyrir Íslendinga þannig að þeir geti með einföldum hætti fundið besta verðið og gengið frá pöntuninni milliliðalaust.

„Vefurinn er hugsaður fyrir hagsýna ferðalanga sem enn eiga enga einkaþotu. Þarna geti þeir á einum stað nálgast alla helstu hótelvefi, flugfélög og bílaleigur og aðra ferðavefi sem ábyrgjast lægsta verðið á þeirri þjónustu sem þeir bjóða," segir Hjörtur Smárason hjá Scope Communications í fréttatilkynningu.

„Með því að nýta þá möguleika sem vidskiptaferdir.is býður upp á geta ferðalangar sparað þúsundir króna á flugi, gistingu og bílaleigubílum án þess að skera niður í gæðum eða öryggi. "

Vidskiptaferdir.is býður í gegnum samstarfsaðila sína upp á yfir 25.000 hótel í yfir 190 löndum og í öllum verðflokkum.

Flugleitin á vidskiptaferdir.is er knúin af hinni íslensku Dohop-flugleitarvél sem leitar að flugi hjá yfir 660 flugfélögum um allan heim, en engin flugleitarvél býður upp á jafnmörg flugfélög og tengimöguleika í flugi.

Á vefnum munu einnig birtast greinar um áhugaverð hótel, veitingastaði og áfangastaði auk þess sem ýmis tilboð verða í gangi. Hægt er að gerast áskrifandi að greinum og tilboðum í gegnum tölvupóst eða RSS.