Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að Evrópusambandið hafi mælt með áframhaldandi ferðatakmörkunum til 15. maí meðal aðildarríkja sinna, og Ísland hyggist staðfesta þá ákvörðun innan tíðar. Samkomubanninu verður aflétt í áföngum, í öfugri röð við þær takmarkanir sem settar voru.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að með afléttingu hafta 4. maí næstkomandi vegna útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum, geti hefðbundið skólastarf í framhalds- og grunnskólum hafist á ný, en áfram verði fjöldatakmarkanir í Háskólum.

Jafnframt verði íþróttastarf barna utandyra heimilað og er þá miðað við 50 þátttakenda hámark, auk þess og nálægðartakmarkanir verði virtar sem frekast er unt. Hjá fullorðnum sé þó hámarkið 4 manns, en hjá þeim sem og eldri börnum séu snertingar óheimilaðar og notkun á sameiginlegum búnaði haldið í lágmarki auk sótthreinsunar.

Þetta kemur fram í fréttamannafundi ríkisstjórnarinnar sem nú er í gangi í Þjóðmenningarhúsinu, en eins og komið hefur fram verður síðustu og hörðustu takmörkununum sem verið hafa í gangi aflétt fyrst. Fer því samkomubannið aftur úr 20 manna hámarki í 50 manna hámark líkt og þegar það var sett á fyrst.

Jafnframt verður aftur heimilt að opna hárgreiðslustofur, sjúkraþjálfun, tannlæknastofur, nuddstofur, snyrtistofur, söfn og aðra sambærilega starfsemi 4. maí, en halda skuli 2 metra fjarlægð milli viðskiptavina eins og kostur er.

Jafnframt verði öll heilbrigðisstarfsemi sem ekki feli í sér valkvæðar skurðaðgerðir heimilaðar, en til að mynda verði sundlaugar og líkamsræktarstöðvar áfram lokaðar, sem og skemmtistaðir, krár, spilasalir og önnur svipuð starfsemi.