*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 14. apríl 2020 12:31

Ferðabann ESB framlengt til 15. maí

Hárgreiðsla á stofum, tannlæknaþjónusta og sjúkraþjálfun getur hafist á ný 4. maí, þegar samkomubann fer aftur í 50 manna hámarkið.

Ritstjórn
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir íslensk stjórnvöld muni staðfesta ferðabann ESB til 15. maí næstkomandi..
Haraldur Guðjónsson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að Evrópusambandið hafi mælt með áframhaldandi ferðatakmörkunum til 15. maí meðal aðildarríkja sinna, og Ísland hyggist staðfesta þá ákvörðun innan tíðar. Samkomubanninu verður aflétt í áföngum, í öfugri röð við þær takmarkanir sem settar voru.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að með afléttingu hafta 4. maí næstkomandi vegna útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum, geti hefðbundið skólastarf í framhalds- og grunnskólum hafist á ný, en áfram verði fjöldatakmarkanir í Háskólum.

Jafnframt verði íþróttastarf barna utandyra heimilað og er þá miðað við 50 þátttakenda hámark, auk þess og nálægðartakmarkanir verði virtar sem frekast er unt. Hjá fullorðnum sé þó hámarkið 4 manns, en hjá þeim sem og eldri börnum séu snertingar óheimilaðar og notkun á sameiginlegum búnaði haldið í lágmarki auk sótthreinsunar.

Þetta kemur fram í fréttamannafundi ríkisstjórnarinnar sem nú er í gangi í Þjóðmenningarhúsinu, en eins og komið hefur fram verður síðustu og hörðustu takmörkununum sem verið hafa í gangi aflétt fyrst. Fer því samkomubannið aftur úr 20 manna hámarki í 50 manna hámark líkt og þegar það var sett á fyrst.

Jafnframt verður aftur heimilt að opna hárgreiðslustofur, sjúkraþjálfun, tannlæknastofur, nuddstofur, snyrtistofur, söfn og aðra sambærilega starfsemi 4. maí, en halda skuli 2 metra fjarlægð milli viðskiptavina eins og kostur er.

Jafnframt verði öll heilbrigðisstarfsemi sem ekki feli í sér valkvæðar skurðaðgerðir heimilaðar, en til að mynda verði sundlaugar og líkamsræktarstöðvar áfram lokaðar, sem og skemmtistaðir, krár, spilasalir og önnur svipuð starfsemi.