Ferðabannið sem Donald Trump lagði á í nótt og meinar erlendum ríkisborgurum sem hafa verið á Schengen svæðinu, þar með talið á Íslandi, á síðustu 14 dögum áður en þeir komu til Bandaríkjanna inngöngu inn í landið, eykur vandræði flugfélaga. Líkt og mikið hefur verið fjallað um standa flugfélög frammi fyrir miklum erfiðleikum vegna minnkandi eftirspurnar vegna kórónuveirunnar.

Í frétt Reuters um málið segir greinandi að ferðabannið muni bitna verst evrópskum flugfélögum. Ferðabannið, sem skellur á á morgun og varir í 30 daga, kemur til vegna þess hve hratt kórónuveiran hefur breiðst út um Evrópu og Bandaríkin.

Bandarísk flugfélög hafa þegar stöðvað allt flug til Ítalíu og munu nú þurfa að taka á sig annan skell með því að fella niður flug á vinsæla áfangastaði líkt og Frakkland og Þýskaland.

Ferðabannið mun líkt og áður segir leggjast þungt á evrópsk flugfélög. Þýska flugfélagið Lufthansa og franska félagið Air France KLM, sem eru stórir aðilar á markaðnum á flugleiðum milli meginlands Evrópu og Bandaríkjanna hafa þegar áformað að hætta að fljúga nokkrum vélum sínum vegna bannsins, að sögn greinanda.

Gengi bréfa evrópsku flugfélaganna hefur fengið að finna fyrir banninu. Þannig hefur gengi þýska flugfélagsins Lufthansa lækkað um 9,31% í morgun, niður í 9,25 evrur, þegar þetta er skrifað, IAG, eigandi bæði British Aiways og Iberia, hefur lækkað um 8,36%, niður í 2,52 dali, og Norwegian Air hefur lækkað um 21,1 eða niður í 71 evrusent.