Halla Sigrún Hjartardóttir tók nýlega við formennsku stjórnar Fjármálaeftirlitsins (FME) af Aðalsteini Leifssyni, en Halla hefur 12 ára reynslu úr fjármálageiranum. „Þetta er spennandi verkefni sem ég fæ að taka mér fyrir hendur hjá FME,“ segir Halla Sigrún. „Ég tel mig hafa mikla þekkingu sem nýtist á þessu sviði þar sem ég starfaði í mörg í bankageiranum á tímum mikilla breytinga,“ bætir hún við. Halla Sigrún situr einnig í stjórn og eigendahópi Fjarðalax ehf., laxeldis sem er starfrækt á Vestfjörðum, og segir að með stjórnarsetu hjá FME gefist henni tækifæri til að viðhalda þekkingu sinni á fjármálasviðinu og fylgjast með framþróun í geiranum samhliða vinnunni hjá Fjarðalaxi.

Halla Sigrún starfaði hjá fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka á árabilinu 2002-2011, síðast sem forstöðumaður sviðsins. Þá tók hún við sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Straums og starfaði þar fram til haustsins 2013 þegar hún ákvað að einbeita sér að starfsemi Fjarðalax. Síðastliðið haust breytti Halla Sigrún þó um gír þegar hún tók við stjórnunarstöðu hjá Fjarðarlaxi. „Þetta er eina laxeldið á Íslandi sem hefur slátrað eldislaxi úr sjó undanfarin ár en fyrirtækið hefur stækkað ört á síðustu árum og mánuðum,“ segir Halla Sigrún. „Við höfum verið að slátra tæplega 100 tonnum af laxi í hverri viku og erum í dag með um 40 manns í vinnu hjá okkur,“ bætir hún við og telur mikla möguleika á þessu sviði hér á landi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .