*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 14. júlí 2020 19:01

Ferðagjöfin nýtt í Dominos pítsur

Icelandair hótel Hamar hefur fengið hæstu fjárhæðina í gegnum Ferðagjöfina eða um 6,5 milljónir króna.

Sigurður Gunnarsson
Um 2,7 milljónir króna af Ferðagjöfinni hafa verið nýttar á Dominos.

Allir einstaklingar 18 ára og eldri með lögheimili á Íslandi fá ferðagjöf frá stjórnvöldum að andvirði 5.000 krónur sem hægt er að nýta til og með 31. desember næstkomandi. Samtals var 131,5 milljónir króna nýttar í gegnum styrkinn frá 18. júní til 13. júlí. Þar af hefur 52 milljónum verið varið á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt vef Ferðamálastofu

Í tilkynningu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þegar Ferðagjöfin var kynnt til leiks kom fram að gjöfin væri liður í því að styðja við bakið á íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar kórónuveirufaraldurs.

Hæsta fjárhæðin hefur verið nýtt á Icelandair hótel Hamar eða um 6,5 milljónir króna. Íslandshótel fylgja þar á eftir með 6,3 milljónir og svo Bláa lónið með 5,5 milljónir. Um 5,2 milljónir hafa farið til Flyover Iceland og 5,1 milljón til Flugfélag Íslands.

Sitthvorar 2,7 milljónir króna hafa farið til Olís og Domino‘s Pizza. Vök böðin á Eigilsstöðum hafa fengið um 2,3 milljónir og Sjóböðin á Húsavík fengið 1,8 milljónir. 

Stærsti hluti ferðagjafarinnar hefur farið í gistingar eða um 41 milljón sem er um 31,8% af heildarfjárhæðinni. Veitingastaðir landsins hafa fengið til sín 38,6 milljónir eða um 29,7% og fyrirtæki sem flokkast undir afþreyingu hafa fengið 37,5 milljónir eða um 28,9%.  

Stikkorð: Ferðagjöfin