Í morgun birti Hagstofan tölur um þjónustuviðskipti á fyrsta ársfjórðungi. Vegna fækkunar erlendra ferðamanna til landsins var búist við því að viðskiptaafgangur yrði minni en í fyrra. Það reyndist rétt. Viðskiptaafgangur hefur dregist saman um 21% milli ára, en afgangur af þjónustuviðskiptum nam 32,6 milljörðum króna. Þetta er minnsti afgangur á einum fjórðungi frá því á fyrsta ársfjórðungi 2013. Frá þessu er greint í markaðspunkti greiningardeildar Arion banka.

Tölurnar eru þó ekki einungis neikvæðar og til að mynda jókst eyðsla á hvern ferðamann milli ára um 1%. „Hollenska veikin“ hefur ekki lagst á landið og knésett annan útflutning. Hugtakið „hollenska veikin“ hefur oft verið notað til að lýsa því þegar ein sterk atvinnugrein, eins og ferðaþjónustan á Íslandi, hækkar raungengi gjaldmiðla og skaðar með því aðrar atvinnugreinar sem reiða sig á útflutning.

Minnkandi vöruskiptahalli

Vöruskiptahallinn á fyrsta ársfjórðungi, á greiðslujafnaðargrunni, var 27,8 milljarðar króna, sem er minni halli en á sama tíma í fyrra, en þá var hann 34,8 milljarðar króna. Minni afgangur af þjónustuviðskiptum vó hins vegar á móti og varð til þess að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum nam 4,8 milljörðum króna, sem samsvarar 25% samdrætti milli ára.

Ferðagleði Íslendinga

Þjónustuinnflutningur jókst umfram þjónustuútflutning á milli ára, eða um 20% samanborið við 6% vöxt útflutnings. Þennan vöxt má rekja til ferðagleði Íslendinga en neysla íslenskra ferðamanna í útlöndum jókst um 24,5% á milli ára. Hver íslenskur ferðamaður eyddi að meðaltali 310 þúsund krónum á ferðalögum sínum og er það 25% aukning á milli ára. Þessi upphæð er sú hæsta á fyrsta ársfjórðungi frá því að Hagstofan tók að birta sundurliðaðar tölur árið 2009.