Ferðakaupstefnan Vestnorden verður haldin í 29. skiptið þegar hún verður sett þann 30. september næstkomandi í Laugardalshöllinni. Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, mun setja kaupstefnuna.

Íslandsstofa er framkvæmdaaðili ferðakaupstefnunnar í samstarfi við ferðamálasamband Norður-Atlantshafsins, en meginhlutverk þess er að móta sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir svæðið Grænland, Ísland og Færeyjar og styrkja ýmis verkefni sem efla ferðaþjónustu innan þess. Ferðakaupstefnan er haldin annað hvert ár á Íslandi og hin árin til skiptis í Færeyjum eða á Grænlandi.

Frummælandi ferðakaupstefnunnar, Emmy verðlaunahafinn Peter Greenberg frá fréttastöðinni CBS, mun fjalla um tvö efni. Annars vegar hvernig hægt er að markaðssetja ferðaþjónustu á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum um allan heim og hins vegar hvernig rétt sé að haga samskiptum við fjölmiðla en þar mun Peter Greenberg taka dæmi af ranghugmyndum sem haldið er á lofti af fjölmiðlum um áfangastaðina við Norður-Atlantshafið.

Inga Hlín Pálsdóttir segir kaupstefnuna fá aukið vægi á hverju ári í takt við aukinn fjölda ferðamanna. „Ísland, Grænland og Færeyjar eru allt áfangastaðir sem búa yfir einstökum tækifærum fyrir ferðamenn. Náttúran, fólkið og menningin eru eiginleikar sem áfangastaðirnir þrír deila að einhverju leyti og við finnum mikinn styrk í því að geta unnið saman á þessum vettvangi að því að kynna löndin saman. Löndin bjóða öll spennandi og fjölbreytta ferðaþjónustu sem fellur vel að þörfum okkar markhópa,“ segir Inga Hlín.