Af þeim 6 ráðuneytum sem höfðu tök á að svara fyrirspurn Viðskiptablaðsins um ferðakostnað í fyrra bar menningar- og viðskiptaráðuneyti Lilju Daggar Alfreðsdóttur höfuð og herðar yfir önnur með 28 milljóna króna heildarkostnað, þar af hátt í 7,2 milljónir bara fyrir ferðir ráðherra eða sem nemur rétt um 600 þúsund krónum á mánuði eða 20 þúsund á dag, hvern einasta dag ársins.

Til samanburðar var utanríkisráðherra – eins og kannski við má búast – næstdýrust í rekstri að þessu leyti og hafði í blálok nóvember aðeins kostað skattgreiðendur um hálfan menningar- og viðskiptaráðherra ársins, eða 3,8 milljónir króna tæpar.

Ekki liggur fyrir sundurliðun á ferðakostnaðinum eða fjöldi ferða, hvorki fyrir þingmenn né ráðherra, fyrir árið í heild. Undir lok síðasta árs spurði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hins vegar öll ráðuneytin út í fjölda utanlandsferða á árinu ásamt kostnaði við þær sundurliðuðum í dagpeninga, ferðakostnað og gistingu.

Þann 9. desember síðastliðinn svaraði ráðuneyti Lilju þeirri fyrirspurn, en þar kom meðal annars fram að það sem af væri því ári – sem raunar hófst ekki fyrr en 1. febrúar þar á bæ með tilurð ráðuneytisins – hefði ráðherra farið í sjö utanlandsferðir.

Þegar þar var komið sögu námu heildargreiðslur dagpeninga til ráðherra vegna slíkra ferða rétt rúmum 700 þúsund krónum, útgjöld í flugfargjöld tæpum 1,9 milljónum króna og samanlagður kostnaður við hótelgistingar yfir 1,3 milljónum, alls ríflega 3,9 milljónir. Þá áttu yfir 3,2 milljónir króna enn eftir að bætast við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.